Siðareglur túlka
1.gr.
Hlutverk túlks er að túlka milli aðila sem ekki tala sama tungumál, á óvilhallan hátt og með virðingu málsaðila að leiðarljósi. Hann skal af fremsta megni leitast við að ávinna og viðhalda trausti málsaðila og samfélagsins á túlkunarstarfinu og faglegri hæfni túlka.
2.gr.
Túlkur skal vera óháður málsaðilum. Hann skal ekki taka við verkefninu þegar hann er á þann hátt tengdur öðrum málsaðilanum að hlutleysi túlksins sé stefnt í hættu.
3.gr.
Túlkur skal rækja störf sín af fordómaleysi og án þess að fara í manngreinarálit vegna kynþáttar, menningar, trúarbragða, færniröskunar, sjúkdóma, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, þjóðfélagsstöðu eða stjórnmálaskoðana málsaðila sinna.
4.gr.
Túlkurinn skal hlýða samvisku sinni og sannfæringu. Honum ber að synja að framkvæma túlkun sem hann treystir sér ekki til að bera faglega ábyrgð á, þegar hann er ekki nægilega kunnugur málsefninu eða hugtakanotuninni. Túlkurinn getur vísað til annars túlks telji hann hag viðkomandi betur borgið með þeim hætti. Túlkurinn áskilur sér einnig þann rétt að ákveða að hætta vegna samviskuástlæðna eða vegna erfiðra kringumstæða, við hótanir eða árásarhneigð málsaðila.
5.gr.
Túlkur skal vera hlutlaus varðandi efnisatriði túlkunarinnar og skal ekki láta í ljós skoðanir sínar gagnvart málsaðilum, kjósa málsstað annars aðila og láta freistast til að tjá sig um eigin viðhorf, eigin túlkun á efninu eða tilfinningar varðandi verkefnið eða hluteigandi aðila. Hann skal jafnframt vera hlutlaus varðandi framsetningu samskipta og upplýsinga. Hann skal rekja þau á sama hátt og þau koma fyrir.
6.gr.
Túlkurinn túlkar samtalið milli málsaðila eins nákvæmt og málefnalegt og unnt er, þ.e.a.s. án þess að bæta einhverju við, sleppa eða breyta einhverju.Þegar örðugleikar koma upp vegna mismuna í tungumálanotkun, merkingakerfa og hugsunarháttar vegna ó9líkra menningarheima sem koma í veg fyrir eðlilegt framhald túlkunar ber túlknum skylda að tilkynna það strax.
7.gr.
Túlkur skal leitast við að gæta virðingar túlkunar sem fags og starfs, gagnvart einstaklingum og gagnvart samfélaginu. Túlkurinn skal gæta háttvísi í framkomu og sýna störfum sínum og fagi virðingu í smaræmi við góðar túlkunarvenjur.
8.gr.
Túlkurinn skal standa vörð um heiður, orðstír og hagsmuni stéttarinnar. Honum ber að sýna túlkastéttinni hollustu og hann skal af fremsta megni leitast við að stuðla að samheldni og samstarfi innan stéttarinnar. Honum ber að sýna starfssystkinum sínum réttvísi og drengskap.
9.gr.
Túlkur er bundinn algjörri þagnarskyldu um þá vitneskju sem hann fær við túlkun, á meðan og eftir að hann starfar sem túlkur. Hann má ekki undir neinum kringustæðum tjá sig um efnisinnihald samtalsins við túlkunina, og ekki heldur nota þessa vitneskju til að bjóða frekari þjónustu og nota upplýsingarnar í eigin þágu eða til að geta hagnast á. Hugsanlegar undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn þegar almannaheill er í húfi en eingöngu að höfðu samráði við siðanefnd félags túlka.
10.gr.
Við túlkun skal túlkur aðeins túlka, hann hefur ekki önnur verkefni en túlkun. Túlkurinn skal ekki fara út fyrir starfssvið sitt og honum ber að hafna öllum beiðnum að vinna önnur störf en túlkunarstarfið.
11.gr.
Túlknum ber að setja faglegan metnað í öndvegi. Honum er skylt að kappkosta að viðhalda, bæta og endurnýja faglega þekkingu sína og færni, og vinna verk sín af álúð og kostgæfni.
12.gr.
Siðareglur þessar mega ekki teljast tæmandi upptalningu allra nauðsynlegra starfsreglna. Túlknum ber að sýna ríka ábyrgðatilfinningu og siðferðilega dómgreind í samræmi við aðstæður til að standa undir skyldum sínum og inna verkið vel af hendi.